Keilisnes er hluti af Þráinsskjaldarhrauni, stórri hraunbreiðu sem rann úr dyngjunni Þráinsskildi fyrir um 14.000 árum. Yfirborð hraunsins er óslétt, grýtt og þakið mosa og móagróðri.
Ströndin er grýtt hnullungafjara, með klöppum á stöku stað. Hafaldan hefur hlaðið upp sjávarkamb úr fjörugrjóti meðfram ströndinni og innan hans er víða gras.
Sjá skýrslu sem Alta tók saman um svæðið; forsendur uppbyggingar og drög að fyrirkomulagi.
LANDHÆÐ
Vatnsleysustrandarvegur fer hæst í um 35 metra hæð þar sem hann liggur yfir Keilisnes en frá þeim stað eru 1.000-1.500 metrar til sjávar. Jafnaðarhalli er því 2,3%-3,5%. Nesið er þríhyrningslaga og í grófum dráttum liggja hæðarlínur samsíða ströndinni hvoru megin. Dálítill hryggur liggur eftir nesinu miðju og þar eru hraunkollar einna stórskornastir. Á stöku stað teygja lágsvæðin sig inn eftir nesinu og mynda nokkurs konar ,,dali''. Við afmörkun iðnaðarsvæða á nesinu þarf að hafa í huga hvort landslagið megi nýta til að minnka sýnileika mannvirkja. Búast má við að lóðir séu lækkaðar í landinu um leið og þær eru jafnaðar en hæðin þarf þó að vera næg til að tryggja gott afrennsli. Grjót úr skeringum í hraunið má nýta við mannvirkjagerð á svæðinu og laus jarðefni af yfirborði mætti nýta í manir.

DÝPI
Nokkuð aðdjúpt er að Keilisnesi austanverðu, þar er skammt út á 30 metra dýpi. Þegar hugmyndir voru uppi um álver á Keilisnesi var gert ráð fyrir höfn í Flekkuvík og gerðar rannsóknir á hafnarskilyrðum, m.a. með líkönum.
Faxaflói er víður og opinn fyrir úthafsöldu en ekki mjög djúpur. Garðskagi veitir nokkurt var fyrir vestanátt.
MINJAR
Árin 2008-2010 voru fornleifar á Keilisnesi skráðar og má sjá lýsingu og staðsetningu þeirra í skýrslu Fornleifastofnunar Íslands. Á Keilisnesi eru minjar sem tengjast búsetu á tveimur jörðum, Kálfatjörn og Flekkuvík, og sýna fornt byggðamynstur útvegsbúskapar.
Á vestanverðu Keilisnesi er kirkjustaðurinn Kálfatjörn. Þar stendur enn kirkja sem byggð var 1892-1893 en umhverfis kirkjuna liggur nú golfvöllur. Þar eru einnig minjar um bæjarstæði Kálfatjarnar og aðrar búsetuminjar s.s. tólftir útihúsa, hleðslur, kálgarða, garðlög og gamla brunna.
Austanvert á nesinu eru minjar um tvíbýli sem stóð á jörðinni Flekkuvík, við samnefnda vík, fyrir og eftir aldamótin 1900. Rask hefur orðið á bæjarstæðinu vegna byggingaframkvæmda og gróður hefur vaxið yfir. Á svæðinu er þó að finna m.a. bæjarstæði nokkurra hjáleiga, hleðslur útihúsa og grjóthlaðna kálgarða. Í grónu hrauni má finni huldufólksbústað í strýtuhólum sem kallaðir eru Kirkjuhólar. Þá er nokkuð um vörður og aðrar minjar um leiðir á báðum jörðum.
Með áhugaverðari minjum er Flekkuheiði, rúnasteinn með áletruninni ,,hér hvílir Flekka". Sagan segir að norska landnámskonan Flekka sem nam Flekkuvík væri grafin þar en hún hafi vilja láta grafa sig í túnjaðrinum þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna. Undir rúnasteininum er jarðföst klöpp og því ljóst að þar er ekki grafreitur og ekki er vitað nákvæmlega hvar hann er.
NÁTTÚRUVÁ
Veðurstofan uppfærir reglulega hættumatskort til skemmri tíma fyrir Reykjanesið og hefur hætta vegna jarðhræringa þeirra sem standa nú yfir á svæðinu alla jafna verið metin mjög lítil á Keilisnesi. Sveitarfélagið Vogar fylgist vel með framvindu og mati á áhrifum jarðhræringa á Reykjanesi á Voga og Keilisnes. Helstu áhrif felast í gosmengun sem farið getur yfir svæðið, en það veltur á veðri og vindum hversu lengi hún varir. Keilisnesið er því vel staðsett á nesinu með tilliti til jarðhræringa til lengri tíma. Stýrihópur um langtímahættumat á Reykjanesskaga á vegum Veðurstofunnar vinnur nú að uppfærslu langtímahættumats fyrir svæðið.
INNVIÐIR
Keilisnes nýtur góðs af nálægð við öfluga innviði. Stuttur spölur er að Reykjanesbraut sem veitir greiðan aðgang að vinnuafli, höfnum, flugvelli ofl. Flutningskerfi raforku er líka skammt undan með Suðurnesjalínu 1 skammt sunnan Reykjanesbrautar. Fyrirhugað er að auka við flutningsgetuna með lagningu Suðurnesjalínu 2. Nálægustu tengivirki eru í Hamranesi og á Fitjum og því líklegt að gera þurfi sérstakar ráðstafanir til að hægt sé að afhenda raforku út á Keilisnes, þá afl sem hleypur á tugum MW.
Dreifikerfi HS Veitna liggur meðfram Vatnsleysustrandarvegi og m.a. til svínabús í Minni - Vatnsleysu en gera þarf ráð fyrir að iðnaðarsvæði á Kelisnesi kalli á meira afl en núverandi dreifikerfi getur annað.
AUÐLINDIR
Hér er gefið stutt yfirlit yfir Auðlindir á Keilisnesi, sem geta verið undirstaða atvinnuuppbyggingar. Horft er á staðbundnar auðlindir en ekki þær sem fluttar eru inn á svæðið, t.d. raforku.
Grunnvatn
Þrátt fyrir örnefnið Vatnsleysuströnd er vitað að verulegir grunnvatnsstraumar eru þar neðanjarðar og vitað um staði þar sem vatnið kemur upp á yfirborð. Berggrunnur Reykjaness er mjög gropinn og leiðir auðveldlega vatn. Úrkoma hripar beint niður í jarðlögin enda er ekkert straumvatn að finna á yfirborðinu. Úrkoma er einna mest á fjallendinu á austanverðum skaganum. Grunnvatn var kannað í tengslum við fyrirhugaðar álversframkvæmdir í lok síðustu aldar. Í ljós kom að ferskvatn flýtur ofan á jarðsjó í lagi sem er um 10-20 metra þykkt næst ströndinni en um 50 metra þykkt við miðju skagans.
Sett hafa verið lög um stjórn vatnamála í þeim tilgangi að vernda vatnsauðlindina til framtíðar. Meginstjórntæki er vatnaáætlun en nýlega kom út fyrsta útgáfa hennar með gildistíma 2022-2027. Í áætluninni eru skilgreind vatnshlot, sem eru númeraðar stjórnsýslueiningar. Áætlunin gerir ráð fyrir öflun upplýsinga um ástand vatns í hverju vatnshloti og vöktun.
Skilgreint er vatnshlotið Straumsvíkurstraumur sem nær yfir norðanverðan Reykjanesskaga, frá Keilisnesi austur að Bláfjöllum, með auðkenni 104-265-G. Samkvæmt upplýsingum í vatnavefsjá er ástand þess að verulegu leyti óþekkt en tilgreint að þar sé mikið grunnvatnsstreymi.
Ásókn í grunnvatn á Reykjanesi og nálægum svæðum er mikil og hefur aukist umtalsvert á síðustu árum. Vatnstakan sjálf er umtalsverður álagsþáttur á auðlindina. Þar sem grunnvatn flýtur á jarðsjó á Reykjanesi er hætta á því að breytt staða grunnvatns raski gæðum grunnvatns og að sjór og mengun berist í ferskvatn. Hægt er að draga úr álagi með því að meta hversu mikið vatn er óhætt að nýta og með vöktun og gæðaeftirliti. Á svæðum þar sem vatnstaka er mikil hefur Skipulagsstofnun hvatt til þess að tekin sé upp sameiginleg vöktun allra aðila sem nýta auðlindina. Aðrir álagsþættir sem geta valdið mengun grunnvatns er búseta fólks, landbúnaður og orkuvinnsla. Lítið er um landbúnað og orkuvinnslu innan vatnshlotsins og því ólíklegt að þessi þættir valdi álagi. Lítill hluti höfuðborgarsvæðisins er innan vatnshlotsins.
Viðtaki
Ekki er vitað um greiningu á því hve vel hafið undan Kelisnesi tekur við frárennsli frá atvinnusvæði, þ.e. hvaða þynningu getur verið um að ræða. Búast má við að hún sé að nokkru leyti afleiðing hafstrauma og sjávarfalla sem alltaf eru fyrir hendi en að auki komi til uppblöndun vegna áhrifa veðurs og vinda.
Landrými
Keilisnesið allt, frá Vatnsleysu í austri að Bakka og Kálfatjörn í vestri, er um 3 km2. Það er um þrefalt stærra en allt atvinnusvæðið í höfðahverfi í Reykjavík, norðan Vesturlandsvegar milli Höfðabakka og Elliðavogar. Þó er ekki hægt að gera ráð fyrir að landið nýtist allt fyrir atvinnulóðir. Miða þarf við að hluta landsins sé haldið í náttúrulegu ástandi, t.d. næst ströndinni og þar sem hraunásar gætu skermað ásýnd að atvinnulóðum. Lóðir þyrfti að slétta með skeringu við hraunið en efnið sem fellur til mætti nota til vegagerðar, í manir og fyrir hafnarframkvæmdir.