Skipulagsmál

Í svæðisskipulagi Suðurnesja er Keilisnes eitt af sex þróunarsvæðum fyrir atvinnuuppbyggingu og er þar gert ráð fyrir matvælaframleiðslu, fjölbreyttum iðnaði og stórskipahöfn. Sjá stöðu svæðisskipulags Suðurnesja 2024 – 2040 í skipulagsgátt.

Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir iðnaðarsvæði og stórskipahöfn á Keilisnesi. Tillaga að nýju aðalskipulagi fyrir Voga er nú til meðferðar hjá sveitarfélaginu og var send til staðfestingar Skipulagsstofnunar í lok október 2025. Er þar gert ráð fyrir stærra svæði undir atvinnustarfsemi á Keilisnesi en núgildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir, áfram er stórskipahöfn inni í aðalskipulagi. 

Framundan er vinna við deiliskipulag fyrir Keilisnes og gefst þá hagaðilum tækifæri til að taka þátt í mótun svæðisins.

Gróf deiliskipulagsdrög

Myndin hér til hliðar sýnir gróflega hvernig lóðir gætu lagst út ásamt aðkomu að þeim. Hafa þarf í huga að lóðirnar falla inn í skeringar í hraunið og minnka þannig sýnileika mannvirkja, m.a. frá Reykjanesbraut. Myndin sýnir hvernig svæðið getur litið út útfrá misstórum lóðum og þá má sjá rúmgott hafnarsvæði.

Verndarákvæði

Auk hverfisverndar í aðalskipulagi ná ýmis verndarákvæði skv. lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 til þeirrar náttúru sem á Keilisnesi er að finna.

Engin friðlýst svæði eru á Keilisnesi eða þar í grennd. Náttúrufræðistofnun hefur lagt til að klóþangsfjörur og fjörupollar við Keilisnes verði friðlýstar. Tillögur stofnunarinnar hafa ekki verið afgreiddar af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Í 61. gr. laganna er kveðið á um sérstaka vernd eldhrauna sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Það á við um hraunið á Keilisnesi. Hin sérstaka vernd áskilur að ljóst sé að brýna nauðsyn beri til að raska hrauninu og að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Með brýnni nauðsyn er átt við brýna almannahagsmuni. Önnur verndarákvæði geta átt við, t.d. um tegundir á válista en upplýsingar liggja ekki fyrir um það.

Scroll to Top