Bæjarstjórn Voga samþykkir nýtt aðalskipulag 2024–2040
{{brizy_dc_image_alt entityId=

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga samþykkti á fundi sínum 29. október 2025 nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið til ársins 2040. Skipulagið markar stefnu sveitarfélagsins um þróun byggðar, samgöngur, umhverfisvernd og nýtingu lands til næstu ára.

Endurskoðun á fyrra aðalskipulagi 2008–2028 hefur verið í vinnslu frá árinu 2019. Í vinnslu nýja aðalskipulagsins hefur verið leitað víðtæks samráðs við íbúa og hagsmunaaðila, og tekið mið af breyttum aðstæðum og áherslum á sjálfbæra þróun.

Við lokaafgreiðslu aðalskipulagsins tók bæjarstjórn afstöðu til framkominna athugasemda og samþykkti eftirfarandi breytingar:

  • Bætt var við umfjöllun um svæði sem skráð eru í B-hluta Náttúruminjaskrár í greinargerð skipulagsins.
  • Þremur varúðarsvæðum vegna gruns um mengaðan jarðveg var bætt við í samræmi við ábendingu Náttúruverndarstofnunar.

Ein af breytingingum frá fyrra aðalskipulagi varðar Keilisnes-svæðið, sem stækkar úr 100 hekturum í 180 hektara. Með þessari breytingu er lagður grunnur að frekari uppbyggingu og þróun svæðisins í takt við framtíðarsýn sveitarfélagsins um atvinnu- og byggðaþróun.

Aðalskipulagið var samþykkt samkvæmt 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


Væntingar sveitarfélagsins standa til þess að umsögnum sem bárust við auglýsingu tillögunnar hafi verið svarað með fullnægjandi hætti.
Geri Skipulagsstofnun ekki frekari athugasemdir ætti nýtt aðalskipulag að öðlast gildi í upphafi næsta árs.

Nýtt aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2024–2040 er aðgengilegt á Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar undir málsnúmerinu 1468/2024 fyrir þá sem vilja kynna sér það nánar.

Scroll to Top