
Sveitarfélagið Vogar undirbýr nú af krafti atvinnuuppbyggingu á Keilisnesi. Keilisnes er vel staðsett, landsvæði rúmt og landgæði góð sem gæti hentað þínu fyrirtæki vel.
Alta ráðgjöf hefur unnið skýrslu um svæðið sem nálgast má hér:
Keilisnes er mjög vel staðsett í nálægð við höfuðborgarsvæðið, helstu flutningshafnir og alþjóðaflugvöll. Gert hefur verið ráð fyrir fjölbreyttum iðnaði og stórskipahöfn á Keilisnesi í svæðis- og aðalskipulagi um nokkurt skeið. Framundan er vinna að deiliskipulagi fyrir Keilisnes og gefst þá hagaðilum tækifæri til að taka þátt í mótun svæðisins.
Gert er ráð fyrir fjölbreyttum iðnaði og stórskipahöfn í svæðisskipulagi Suðurnesja 2024-2040 og aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga.
Vatnsleysustrandarvegur fer hæst í um 35 metra hæð þar sem hann liggur yfir Keilisnes en frá þeim stað eru um 1.000 – 1.500 metrar til sjávar. Jafnaðarhalli er því 2,3%-3,5%. Lóðir falla vel að landslagi sem minnkar sýnileika mannvirkja.
Nokkuð aðdjúpt er að Keilisnesi austanverðu, þar er skammt út á um og yfir 30 metra dýpi. Rannsóknir á hafnarskilyrðum í Flekkuvík hafa sýnt möguleika á stórskipahöfn á svæðinu.
Stærð nessins, frá Bakka/Litlabæ, norðan Vatnsleysustrandarvegar og að vegi að Vatnsleysu er um 345 ha. Gert er ráð fyrir 180 ha svæði fyrir atvinnustarfsemi í aðalskipulagsdrögum.
Veðurstofan uppfærir reglulega hættumatskort til skemmri tíma fyrir Reykjanesið og hefur hætta vegna jarðhræringa þeirra sem sem standa nú yfir á svæðinu alla jafna verið metin mjög lítil.
Berggrunnur Reykjaness er mjög gropinn og leiðir auðveldlega vatn. Á nesinu eru verulegir grunnvatnsstraumar neðanjarðar og vitað er um staði þar sem vatnið kemur upp á yfirborð. Grunnvatn var kannað í tengslum við fyrirhugaðar álversframkvæmdir á Keilisnesi í lok síðustu aldar. Í ljós kom að ferskvatn flýtur ofan á jarðsjó í lagi sem er um 10-20 metra þykkt næst ströndinni en um 50 metra þykkt við miðju skagans.
Flutningskerfi raforku er skammt undan með Suðurnesjalínu 1. Flutningsgeta mun aukast enn með tilkomu Suðurnesjalínu 2. Dreifikerfi HS Veitna liggur meðfram Vatnsleysustrandarvegi en gera þarf ráð fyrir að nýtt atvinnusvæði kalli á meira afl en núverandi dreifikerfi annar.
Viltu kynna þér svæðið og uppbyggingaráform sveitarfélagsins?